Leiðangrar rannsóknaskipsins Pourquoi pas? voru hágæða rannsóknaleiðangrar í Suður- og Norðurhöfum á fyrri hluta síðustu aldar, þar sem fjölda sýna var aflað. Niðurstöður þeirra rannsókna birtust í fjölmörgum tímaritsgreinum og bókum. Charcot og áhöfn hans á rannsóknaskipinu Pourquoi-pas? voru því nánast í samskonar rannsóknum eins og kennarar og nemendur við Háskóla Ísland eru í dag. Það er því við hæfi að minnast þessa merkilega manns, áhafnar hans og rannsóknaskipsins Pourquoi pas?, sem fórst við Íslandsstrendur, með fjölbreytilegum hætti, m.a. með þessari heimasíðu. Charcot er góð fyrirmynd okkar allra, en ekki síst ungra vísindamanna sem eru að hefja feril sinn við sjávarrannsóknir.
Vefsíðan er hluti af hinu svokallaða Charcotverkefni sem var hleypt af stað árið 2005, en þá hófst undirbúningur viðburða í tilefni að árið 2006 voru sjötíu ár liðin frá því franska rannsóknarskipið Pourquoi-Pas? fórst við stendur Íslands. Þá var haldin ráðstefna um Charcot í HÍ, í ársbyrjun var viðamikil sýning um hann og leiðangra hans opnuð í Þekkingarsetrinu í Sandgerði og síðan hafa svokallaðir Charcotfyrirlestrar verið haldnir árlega.
Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands hafði forgöngu um verkefnið, en ábyrgðar- og umsjónarmaður vefsíðunnar er Friðrik Rafnsson.
Jörundur Svavarsson er prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknir hans hafa verið í flokkunarfræði sjávardýra, djúpsjávarlíffræði og eiturefnavistfræði. Vegna rannsókna sinna hefur Jörundur farið í fjölmarga rannsóknaleiðangra víða um höf og stundað rannsóknir m.a. í Norðurhöfum, í Andamanhafi, við Nýja Sjáland og við Kóralrifið mikla við Ástralíu.
Friðrik Rafnsson er bókmenntafræðingur og þýðandi, en hann hefur líka unnið að vefmálum um árabil, m.a. hjá bókaútgáfu Máls og menningar, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg. Hann hefur tekið þátt í ýmsum samstarfsverkefnum milli Frakklands og Íslands og var forseti Alliance francaise frá 2007 til 2012.
Síða þessi var sett upp með stuðningi frá Dr. Bernard Dor.
Vinsamlegast sendið fyrirspurnir og ábendingar í gegnum formið hér fyrir neðan.