Charcot á Íslandi

Yfirlitsmynd af leiðangri Charcots á Pourquoi-Pas? árið 1931
Yfirlitsmynd af leiðangri Charcots á Pourquoi-Pas? árið 1931

Ísland kemur nokkuð oft fyrir í bók eftir Serge Kahn um Charcot, Jean-Baptiste Charcot – heimskautafari, landkönnuður og læknir,  sem kom út árið 2006. Hann segir til dæmis á einum stað: “Strax í fyrstu siglingunum sínum heillaðist Charcot af þessu landi birtunnar. Hvítir jöklar, blá fjöll, grænar grundir, brúnir gígar, svartir sandar og tærir gufuhverir, allt er þetta síkvikt vegna stöðugs samspils andstæðna. Birtan slær taktinn í deginum í þessari örlátu og skapandi náttúru.”

Charcot þekkti vel til á Íslandi og hann þekkti fjölmarga Íslendinga. Hann fór allmörgum sinnum til Íslands frá 1902 til 1936, einkum eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk, árið 1918. Fyrst fór hann þangað að sumarlagi í sinni fyrstu ferð á norðurslóðir, til Færeyja, Íslands og Jan Mayen. Hann fór síðan sem kunnugt er í sína hinstu för þrjátíu og fjórum árum síðar. Þetta tímabil norðurslóðasiglinga spannar því þrjátíu og fjögur ár af ævi hans, næstum helming ævi hans og stóran hluta starfsævi hans.

Mynd af Gullfossi tekin í einum af leiðöngrum Charcots
Mynd af Gullfossi tekin í einum af leiðöngrum Charcots

Samkvæmt áðurnefndri bók eftir Serge Kahn kom Charcot og hans menn alls fjórtán sinnum til Íslands, höfðu viðkomu í Reykjavík og á Akureyri, auk annarra staða sem taldir eru upp í bókinni, en samkvæmt þeim sömu upplýsingum höfðu þeir alls fjörutíu sinnum viðkomu á ýmsum stöðum hérlendis. Yfirleitt höfðu þeir stuttan stans hér til að taka vistir, vatn og kol, en líka til að hvílast aðeins og hitta fólk. Stundum stöldruðu þeir lengur við og gafst þá færi á að skoða landið, skreppa inn í Eyjafjörð, á Þingvöll, að Gullfossi eða austur í Haukadal og skoða goshverina þar.

Rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? sést hér á Pollinum við Akureyri, en í forgrunninum er póstflugvél Flugfélags Íslands. Myndin er sennilega tekin árið 1928.
Rannsóknaskipið Pourquoi-Pas? sést hér á Pollinum við Akureyri, en í forgrunninum er póstflugvél Flugfélags Íslands. Myndin er sennilega tekin árið 1928.

Frakkar voru nokkuð umsvifamiklir á Íslandi á þessum tíma og Alliance française í Reykjavík var stofnuð strax árið 1911, sama ár og Háskóli Íslands. Charcot leit svo á að honum bæri skylda til að styðja við starfsemi  Alliance française í Reykjavík og þegar hann átti þess kost hélt hann fyrirlestra þar um ýmis efni, þeim hópi Frakka og Frakklandsvina sem hér voru þá til ómældrar gleði. Fyrirlestrar Charcots töldust til stórtíðinda í menningarlífi bæjarins á þessum tíma og þeirra var oft getið í blöðum. Þannig varð nafn Charcots smátt og smátt kunnuglegt í eyrum Íslendinga, hann varð það sem seinna var farið að kalla Íslandsvinur.

Thora Friðriksson ásamt Charcot og danska jarðfræðingnum og heimskautafaranum Lauge Koch. Þau standa þarna á þilfarinu á Pourquoi-Pas?
Thora Friðriksson ásamt Charcot og danska jarðfræðingnum og heimskautafaranum Lauge Koch. Þau standa þarna á þilfarinu á Pourquoi-Pas?

Meðal bestu vina hans hérlendis var Thora Friðriksson (1866–1958) einn stofnenda Alliance francaise í Reykjavík og og forseti félagsins frá 1932-1936. Vilmundur Jónsson landlæknir kallaði Thoru Friðriksson „síðasta aristókratann“ í minningagrein um hana árið 1958. Hún var merkiskona á sínum tíma sem barðist fyrir réttindum kvenna, var afar virk í menningarlífi Reykjavíkur, listræn verslunarkona með meiru en líka virk í menningarstarfi milli Frakklands og Íslands. Hún kynntist Charcot vel, var langdvölum í París á fyrri hluta 20. aldarinnar og komst fyrir tilstuðlan hans inn innsta hring menningarlífisins þar.

Pourquoi-Pas? á Ísafirði árið 1936
Pourquoi-Pas? á Ísafirði árið 1936

Þegar hið glæsilega skip Jean-Baptiste Charcot , Pourquoi-Pas? kom siglandi inn í höfnina var það stórviðburður í hvert sinn: stórt og glæsilegt seglskip með mikilfenglegri seglabúnað en fólk hafði augum litið. Og allir vissu að þarna fór frægur maður, leiðangursstjóri sem hafði siglt alla leið til Suðurskautslandsins, mikill heimsmaður sveipaður ævintýraljóma, fágaður Frakki sem kom með allan heiminn í farteskinu, en um leið maður sem gerði engan mannamun var afar hógvær og hlýr í viðmóti.

Gullfoss_Charcot Íslendingum, sem ævinlega hafa verið forvitnir um það sem gerist í heiminum, fannst Charcot vera holdgervingur vísinda- og þekkingar, rannsókna og ævintýra, og þeim fannst skipið hans stórglæsilegt, svo tignarlegt að það var ævintýri líkast.