Charcots minnst

Lágmynd 1Á minnismerki fyrir framan Öskju, náttúrufræðahús Háskóla Íslands, er lágmynd af Jean-Baptiste Charcot sem var afhjúpað þann 14. nóvember 1953 af þáverandi forsætisráðherra, Ólafi Thors. Þar stendur: “Jean-Baptiste Charcot, fæddur í París 15. 7. 1867. Fórst með skipi sínu Pourquoi-Pas? á Þormóðsskeri 16. 9. 1936. Hann unni Íslandi og þar mun minningin um hann og skip hans lifa.” Segja má að þessi lágmynd sé á vissan hátt eins konar samstarfs- og vináttusáttmáli milli Íslendinga og Frakka.

Hvað hefur verið gert til að standa við þennan vináttusáttmála frá 1953 um að halda minningu Charcots lifandi á Íslandi? Hér að ofan var minnst á lágmyndina við H.Í., en margt fleira má nefna og er eflaust ekki allt upptalið:

  1. Nokkrir úr áhöfnin Pourquoi-Pas? eru grafnir í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík.
  2. Minnismerki er í Straumfirði á Mýrum, en þaðan sést vel til skersins Hnokka sem Pourquopi-Pas? steytti á, en flest líkin rak einmitt á land í fjöru þar.
  3. Stytta eftir Einar Jónsson til minningar um áhöfnina á Pourquoi-Pas?
    Stytta eftir Einar Jónsson til minningar um áhöfnina á Pourquoi-Pas?

    Á Fáskrúðsfirði er stytta eftir Einar Jónsson sem hann gerði til minningar um áhöfnina og afsteypu af þessari sömu styttu er að finna í Saint-Malo á Bretagneskaga í Norður-Frakklandi, en þar var Pourquoi-Pas? einmitt smíðað á sínum tíma. Þá styttu gaf íslenska þjóðin Frökkum þegar Björn Bjarnason þá verandi menntamálaráðherra fór þangað í opinbera heimsókn árið 1998.

  4. Kvikmyndaleikstjórinn Kristín Jóhannesdóttir gerði árið 1992 kvikmynd, Svo á jörðu sem á himni, sem að hluta til byggir á þessum atburði.
  5. Til er kantata eftir Skúla Halldórsson sem skrifuð er í minningu áhafnarinnar á Pourquoi-Pas?
  6. Í það minnsta tvær bækur hafa voru gefnar út um miðja síðustu öld. Önnur nefnist „Charcot á suðurskautinu“ og var endursamin og þýdd af Sigurði Thorlacius. Hin eftir Þóru Friðriksson, sem nefnist einfaldlega „Dr. Jean Baptiste Charcot“, og fjallar um minningar Thoru um Chacot en hún var mikil vinkona Charcots á sínum tíma og forseti Alliance française um árabil.
  7. Jean-Christophe Victor og Anne-Marie Vallin-Charcot
    Jean-Christophe Victor og Anne-Marie Vallin-Charcot

    Þann 14. september 2006 var efnt til ráðstefnu um Charcot í Háskóla Íslands, en tveimur dögum síðar voru sjötíu ár liðin frá því skipið fórst. Eftir það hafa árlega verið haldnir fyrirlestrar um ævi og vísindalegan afrakstur Charcots, ýmist  í Háskóla Íslands eða í Alliance française í Reykjavík. Meðal fyrirlesara má nefna Jean-Christophe Victor, frá frönsku Heimskautastofnuninni og Anne-Marie Vallin-Charcot, dótturdóttur Charcots.

  8. Í september 2006 kom út bókin Jean-Baptiste Charcot – heimskautafari, landkönnuður og læknir eftir Serge Kahn (JPV – úgáfa).
  9. Þann 16. september 2006 var opnuð sýning í Tjerneshúsi í Englendingavík í Borgarnesi í tilefni af því að 70 ár voru liðin frá strandi Pourquoi-Pas? Þar var munum úr skipinu safnað saman til að gefa sem heilsteyptasta mynd af skipinu.
  10. Í Safnahúsi Borgarfjarðar er líkan af Pourquoi-Pas? og minnismerki um áhöfnina á rannsóknaskipinu ásamt fleiri upplýsingum.
  11. Heimskautin heilla“ sýning um vísindaleiðangra Charcots í Þekkingarsetri Suðurnesja opnuð í febrúar 2007.Við þetta má bæta fjölmörgum blaðagreinum og söguþáttum, m.a. eftir Árna Óla, en mest hefur þó Elín Pálmadóttir skrifað um Charcot í Morgunblaðið í gegnum árin og almennt um samskipti Frakka og Íslendinga í gegnum aldirnar, meðal annars hina stórmerku bók, Fransí biskví.

Enn eitt dæmið um  mikilvægi Charcots í sögu Íslendinga er grein sem Halldór Laxness skrifaði árið 1941 og birti í Tímariti Máls og menningar (3. hefti 1941) undir yfirskriftinni “Ísland og Frakkland”. Þar fjallar hann um Charcot og strandið, og þær hræðilegu þjáningar sem Gonidec, sá eini sem lifði af, mátti þola, fjallar hann um útfarirnar í Reykjavík, Saint-Malo og París og lýkur greininni með þessum orðum: “Hafi maður einu sinni skilið harm þjóðar er sem maður sé bundinn henni órjúfanlegum böndum alla stund upp frá því.”