Thibault de Rugy

Thibault de Rugy
Thibault de Rugy

Vorið 2012 var sýningunni Heimskautin heilla afhent merkileg gjöf: hásetapeysa sem hafði verið í eigu eins áhafnarmeðlima á Pourquoi-Pas?, Thibault de Rugy. Þegar hásetapeysan var afhent flutti Jean-Claude Lacaille, sem hafði milligöngu með gjöfina, ávarp þar sem hann sagði m.a.: „Thibault de Rugy  var kvaddur í herþjónustu árið 1934 og gekk í í sjóherinn. Þegar hann sá  Pourquoi-pas? í höfn í Cherbourg bað hann sjálfur um að fá að fara með í leiðangurinn árið 1935. Hann fékk því framgengt og fór með skipinu til Íslands og Grænlands um sumarið. Hann kom aftur til Rouen  í september 1935 og lauk herþjónustunni í Cherbourg. Síðan varð hann kaþólskur prestur í Montaure, þar sem hann kynntist  Marthe Emmanuelle sem var lengi ritari Charcots, en hún bjó um skeið í  Montaure nærri Rouen. Hann hætti sem kaþólskur prestur og gerðist prestur í mótmælendasöfnuði.

Hásetapeysan sem Thibault de Rugy klæddist sumarið 1935 í leiðangri til Íslands
Hásetapeysan sem Thibault de Rugy klæddist sumarið 1935 í leiðangri til Íslands

Ég kynntist honum á níunda áratugnum þegar hann var orðinn forseti samtaka þeirra sem sigldu með Pourquoi-pas? Með okkur tókst góð vinátta og árið 1988 gaf hann mér hásetapeysu og kaskeiti sem hann hafði varðveitt vandlega frá árinu 1935 því hann vissi að ég myndi passa vel upp á þetta. Á árunum 1988 – 2012 varðveitti ég þennan minjagrip, en þó gerðist það árið 1997 að það kviknaði í hjá mér en peysan slapp að mestu óskemmd, utan þess að hálsmálið sviðnaði aðeins. Kaskeitið hefur hins vegar verið sýnt á Heimskautasafni Paul-Emile Voctor í Prémanon frá árinu 1990.

Thibault de Rugy  lést þann 1. júní 2005 í Albon í  Ardechehéraði. Ég heimsótti hann upp á „fjallið hans“ eins og hann sagði, ég hafði farið að óskum hans því hann langaði að heyra í stóru kirkjuklukkunni sem kölluð er „bourdon“ í dómkirkjunni í Rouen. Hún hafði ekki virkað frá því í stríðinu en gert var við hana árið 1999 og þegar hún var vígð aftur fór ég með upptökutæki og tók upp hljóminn í henni. Hann gat því hlustað á kirkjuklukkuna á þennan hátt og var mjög ánægður. Peysan hans hefur verið sýnd nokkrum sinnum þegar sýningar um Charcot hafa verið settar upp og það hefur ævinlega verið eins og helgiathöfn að láta þetta tímabil kvikna aftur til lífsins fyrir tilstuðlan peysunnar. Nú þegar hún er farin burt úr okkar fallega Normandíhéraði, þar sem Thibault var alinn upp, og alla leið norður til Íslands, þá held ég að ef Thibault  myndi horfa á okkur þarna að ofan væri hann ánægður með að sjá að peysan hans er til sýnis í Charcotsafninu á Íslandi. Ég held að ekki sé hægt að votta honum virðingu sína á öllu einlægari hátt.“