Jean-Baptiste Charcot (1867 – 1936) var læknir, leiðangursstjóri og heimskautafari, sonur hins heimsþekkta taugalæknis, Jean Martin Charcot. Árið 1903 lét hann smíða þrímastra, 32 m. skip í Saint-Malo í Bretagne í Norður-Frakklandi sem hann lét nefna Le Français (Frakkinn) og leggur á því upp í fyrsta leiðangur Frakka á Suðurskautið og hefur vetursetu við Wandeleyju þar syðra.
Vísindalegur afrakstur þeirrar ferðar var meiri en nokkurn óraði fyrir: 1000 km. af áður ókunnum strandlengjum kannaðar og kortlagðar, þrjú nákvæm sjókort gerð, og 75 kössum af gögnum safnað og afhent Náttúrugripasafni Frakklands.
Fljótlega eftir að hann sneri aftur til Frakklands fer hann að undirbúa nýjan leiðangur á Suðurskautið og setur af stað smíðina á Pourquoi Pas? sérútbúið skip til heimskautaleiðangra með þremur tilraunastofum og bókasafni. Afrakstur leiðangursins er verulegur og fela í sér rannsóknir í haffræði, veðurfræði, á hafstraumum og segulfræðum. Ennfremur öfluðu þeir gríðarlegs safns dýra og plantna sem afhent var safni og stofnun hafrannsókna í Mónakó og kortlögðu 2000 km. strandlengju.
Árið 1928 leggja Pourquoi Pas? og skipið Strasbourg upp í árangursla leit að flugbátnum sem norski landkönnuðurinn Roald Amundsen var með. Árið 1934 var Charcot í forystu leiðangurs til Grænlands sem farinn var á vegum mannfræðingsins Paul-Émile Victor sem dvaldist í eitt ár í Ammassalík og lifði meðal eskimóa allan þann tíma.
Þann 16. september 1936 lenti skip hans, Pourquoi Pas?, í miklu og óvæntu óveðri út af Reykjanesi, hraktist upp í Borgarfjörð og fórst á Hnokka út af Álftanesi á Mýrum. Alls létust 40 manns, 23 fundust látnir, 17 var saknað og fundust aldrei og einn skipverji komst lífs af.
Charcot og menn hans komu oft við hér á landi í leiðöngrum sínum á norðurslóðir, bæði í Reykjavík, Akureyri og Patreksfirði. Hann eignaðist fjölmarga vini hér á landi og hélt góðu sambandi við þá allt þar til yfir lauk. Strand Pourquoi Pas? var mikil sorgarfrétt á Íslandi á sínum tíma og til marks um það má nefna að þegar minningarsamkoma um hina látnu var haldin var öllum verslunum í Reykjavík lokað, og mun það vera einsdæmi að erlendum mönnum sé sýndur viðlíka sómi.